Gæðaverkefni í verkefnamiðuð námi eru nefnd gullverkefni og þau fylgja fastmótuðu ferli:
- Ögrandi athugunarefni og spurningar móta gullverkefni, þau hafa merkingu fyrir nemendum og gefa náminu tilgang. Nemendur afla sér þekkingar til að nýta hana í verkefnavinnu.
- Rannsóknarvinna, spurningar settar fram og ný þekking skapast. Nemendur greina hvað þeir vita um viðfangsefnið, spyrja frekari spurninga og við tekur rannsóknarvinna um viðfangsefnið. Um er að ræða rannsókn þar sem nemendur gætu þurft að afla heimilda, taka viðtal við sérfræðinga, gera vettvangsathuganir eða tilraunir.
- Tenging við daglegt líf snýst um að gera námsreynsluna eins raunverulega og kostur er. Verkefnið þarf að vera raunverulegt fyrir nemendum og tengjast daglegu lífi þeirra eða raunverulegum málum í samfélagi þeirra.
- Rödd og val nemenda. Þegar nemendur leysa ögrandi vandamál eða spurningar þurfa þeir að þjálfa dómgreind sína og taka ákvarðanir í vinnuferlinu. Stærri ákvarðanir eru teknar í samráði við kennara en lokamarkmiðið er að þjálfa og hvetja nemendur til að taka rökréttar og skynsamlegar ákvarðanir í lífinu.
- Nemendur og kennarar ígrunda reynslu sína. Ígrundun er nauðsynlegur þáttur í verkefnaferlinu. Ígrunda þarf árangur rannsóknar og gæði verkefnavinnu nemenda jafnt og þétt. Auk þess þarf að ígrunda hindranir sem upp koma, hvernig má yfirstíga þær og hvernig það gekk.
- Gagnrýni og endurskoðun gengur út á að bæta vinnu nemenda með því að skapa aðstæður þar sem nemendur fá endurgjöf frá kennara, sérfræðingi eða samnemendum. Nemendur skoða gæði vinnu sinnar og fá tækifæri til að breyta og þróa hana áður en verkefnið er fullunnið.
- Afrakstur kynntur. Gullverkefni gefa nemendum tækifæri til að skapa afurð og deila með öðrum, innan sem utan kennslustofu. Afurðin er talin raunverulegri á þennan hátt og hvetur nemendur til að gera betur en ella.