Kennsluleiðbeiningar

Verkefnamiðað nám snýst um vinnu með lykilþekkingu, djúpan skilning og lykilhæfni sem hvetur nemendur og kennarar til að kafa djúpt í viðfangsefni. Skapa má slíkt umhverfi með því að bjóða upp á hvetjandi námsaðstæður sem virkja forvitni og áhuga nemenda sem drífur námi áfram. Kennari hannar rannsóknarspurningu sem stýrir og leiðir verkefnið áfram, skipuleggur verkefni og gætir þess að viðfangsefni og afrakstur verkefnis krefjist þess að nemendur vinni á fjölbreyttan með hæfniviðmið og lykilhæfni aðalnámskrar. Viðfangsefni verkefna ýta undir djúpan skilning nemenda í námi. Kennari leggur áherslu á að verkefni séu opin, að þau bjóði upp á ólíkar leiðir í rannsóknarferlinu, að nemendur fái útrás fyrir sköpun, tileinki sér grunnþekkingu og nýti hæfni sína til að svara rannsóknarspurningunni. Við rannsóknarspurningu er ekkert eitt rétt svar heldur býður hún upp á ólík svör. Nemendur hafa val og rödd sem þeir nýta til að koma með sínar skoðanir og hugmyndir varðandi verkefni. Kennarar í verkefnamiðaðri kennslu byggja upp menningu verkefnamiðaðs náms sem m.a. hvetur til hugarfars vaxtar með því gera nemendur meðvitaða um að eiginleikar þeirra takmarkist hvorki af erfðum né bakgrunni þeirra, allir geti aukið getu sína og hæfni með vinnusemi og þrautseigju. Frekar en að horfa eingöngu á lokaafurðina, hrósa kennarar nemendum þegar þeir sjá þegar nemendur leggja sig fram, sýna seiglu og þrautseigju við að yfirstíga erfiðleika og nýta sér mistök til að læra af þeim. Nemendur í eru óhræddir við að gera mistök því þeir vita að mistök eru hluti af námsferlinu og þau leiða þá áfram. Kennarar eru í hlutverki verkefnastjóra sem leiða verkefni frá upphafi til enda. Kennarar styðja við nám nemenda, stuðla að auknu sjálfstæði þeirra með nemendamiðun að leiðarljósi. Kennarar gegna mikilvægu hlutverki í að móta, styðja og fylgjast með hópumræðum nemenda til að ýta undir skilning og gagnrýna hugsun þeirra Áhersla er á að kennarar skipti kennslu námsmarkmiða niður í u.þ.b. 15 mínútna einingar sem þeir dreifi jafnt yfir verkefnatímabilið þannig nemendur fái tækifæri til að nýta nýja þekkingu þegar þeir þurfi á henni að halda. Rannsóknir benda til þess að 15 mínútur séu sá tími sem athygli nemenda er sem mest. Kennslan getur verið fyrir allan bekkinn, staka hópa eða jafnvel einn nemanda ef svo ber undir. Kennsla er talin skilvirkust þegar nemendur geti tengt nýja þekkingu við vinnu sína og nýtt sér hana jafnt og þétt þegar þeir þurfa á henni að halda.