Rannsóknir benda til þess að verkefnamiðað nám sé árángursrík og ánægjuleg leið til að læra og nemendur þrói lykilhæfni sem kemur þeim að góðum notum í áframhaldandi námi, atvinnulífi og persónulegu lífi. Verkefnamiðað nám er talið:
- Gera skólann áhugaverðari fyrir nemendum. Nemendur eru margir hverjir áhugalausir í skóla, leiðist og finnst námið tilgangslaust. Í verkefnamiðuðu námi eru nemendur virkir, verkefni hafa áhrif á þá, þeir sjá tilgang með vinnu sinni og námið veitir þeim raunverulega tengingu við daglegt líf.
- Auka nám. Að verkefni loknu hafa nemendur dýpri þekkingu, muna það sem þeir lærðu og halda þekkingu lengur en í hefðbundnu námi. Nemendur öðlast innihaldsríka þekkingu og geta nýtt sér hana í nýjum aðstæðum.
- Byggja upp árangursríka hæfni fyrir nám, atvinnulíf og persónlulegt líf. Í gegnum verkefnavinnu, læra nemendur að taka frumkvæði og ábyrgð, byggja upp sjálfstraust, leysa vandamál, vinna í hópum, komast að samkomulagi og öðlast sjálfsstjórn.
- Veita nemendum möguleika til að læra á og nýta sér tækni. Nemendur læra að þekkja og nota möguleika sem felast í tækni í námi. Í gegnum tækni finna kennarar og nemendur lausnir og upplýsingar, vinna saman, tengjast sérfræðingum og jafningjum víða um heim auk þess að útbúa kynningar og flytja þær.
- Auka ánægju kennara. Kennarar vinna náið með virkum, áhugasömum nemendum og taka þátt í námi þeirra.
- Tengja nemendur og skóla við samfélagið og raunheiminn. Verkefni gefa nemendum tækifæri til að leysa vandamál og taka á málum sem eru þeim mikilvæg. Nemendur læra að eiga samskipti við fullorðna, kynnast atvinnulífinu, raunverulegum verkefnum og geta þróað hugmyndir sínar um framtíðarstörf.
- Veita jafna möguleika til náms. Verkefnavinna getur haft mikil áhrif á og hjálpað nemendum að uppgötva og virkja hæfileika sína. Raunveruleikaverkefni veita nemendum tilfinningu fyrir því að þeir hafi áhrif og námið hafi tilgang. Þeir upplifa að þeir gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu og víðar.